Fótbolti

Alfreð: Höfum talað um U-21 mótið í Danmörku

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Finnbogason á blaðamannafundinum í morgun.
Alfreð Finnbogason á blaðamannafundinum í morgun. Vísir/Vilhelm
Alfreð Finnbogason, leikmaður íslenska landsliðsins, segir að það megi margt læra af Evrópoumeistaramóti U-21 liða sem Ísland tók þátt í árið 2011.

Ísland mætti til leiks með virkilega sterkt lið og mætti Hvíta-Rússlandi í fyrsta leik - liði sem Ísland átti hvað bestan möguleika á að vinna fyrirfram.

Ísland tapaði hins vegar leiknum og það kostaði liðið á endanum sæti í undanúrslitum keppninnar og keppnisrétt á Ólympíuleikunum í London.

„Við höfum verið að bíða eftir þessum leik í tíu mánuði. Nú er hann að nálgast og eru allir spenntir. Það er eðlilegt. Ef við værum ekki spenntir, þá væri eitthvað að,“ sagði Alfreð á blaðamannafundi í Annecy í dag um leikinn gegn Portúgal á þriðjudag.

„En ég hugsa baka til U-21 keppninnar í Danmörku. Þar klikkuðum við í fyrsta leik. Við reyndum að vinna þann leik sem einstaklingar og ein slæm úrslit voru okkur dýrkeypt. Þetta höfum við rætt og það gæti nýst okkur, sem og reynsla Lars.“

„Þetta er ekki eintóm skemmtun hjá okkur. Við skiptumst líka á skoðunum og ræðum málin. En við erum allir með sama markmið og viljum ná því. Það byrjar á þriðjudag.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×