Fótbolti

„Ronaldo verður upp á sitt besta á EM - bara ekki gegn Íslandi“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Cristiano Ronaldo er mættur með öflugu landsliði Portúgals á Evrópumótið.
Cristiano Ronaldo er mættur með öflugu landsliði Portúgals á Evrópumótið. vísir/EPA
Cristiano Ronaldo fékk kærkomið frí eftir langt tímabil með Real Madrid í vor og ákvað Fernando Santos, landsliðsþjálfari Portúgals, að gefa honum vikufrí frá undirbúningi Portúgals fyrir EM í Frakklandi.

Ronaldo var að glíma við meiðsli undir lok síðasta tímabils og var Lars Lagerbäck spurður á blaðamannafundi íslenska liðsins í dag hvort að hann teldi að Ronaldo væri í sínu besta formi.

„Ég get litlu svarað um það en ég sá hann spila í 45 mínútur gegn Eistlandi og þá leit hann vel út. Það var gott hjá þjálfaranum að gefa honum vikufrí enda eru leikmenn í dag að spila allt of marga leiki,“ sagði Lagerbäck.

„Ég skil vel að hann hafi verið þreyttur. Hjá okkur vorum við með þrettán leikmenn að spila í síðustu viku maí. Ég tel að allir leikmenn ættu að fá vikufrí áður en þeir fara inn í undirbúning með landsliðum sínum fyrir stórmót.“

Hann segir að það sé nóg fyrir líkamann að fá vikufrí til að jafna sig en andleg þreyta sé persónubundin.

„Ég held að Ronaldo verði upp á sitt besta. Bara ekki gegn Íslandi,“ sagði Lagerbäck.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×