Fótbolti

Alfreð: Sjálfstraust er ekki eitthvað sem maður tínir upp af götunni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Birkir Bjarnason og Alfreð Finnbogason koma báðir sjóðheitir á EM.
Birkir Bjarnason og Alfreð Finnbogason koma báðir sjóðheitir á EM. vísir/vilhelm
Alfreð Finnbogason og Birkir Bjarnason sögðust báðir vera fullir sjálfstrausts fyrir komandi átök á EM í fótbolta en íslenska liðið mætir Portúgal í fyrsta leik í St. Étienne á þriðjudagskvöldið.

Leikmennirnir sátu fyrir svörum á blaðamannafundi íslenska liðsins í Annecy í dag ásamt Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfara. Báðum gekk vel með félagsliðum sínum í aðdraganda mótsins og það skiptir máli.

Sjá einnig:EM í dag: Hótelhittingur og bullurnar í Marseille

Birkir gekk í raðir Basel síðasta sumar frá Pescara á Ítalíu og spilaði stórvel. Hann skoraði tíu mörk af miðjunni í 29 deildarleikjum og þrettán mörk í heildina.

„Það er gott fyrir sjálfstraustið að mæta á svona mót eftir góða leiktíð. Það gefur manni mikið,“ sagði Birkir Bjarnason sem varð svissneskur meistari með Basel á síðustu leiktíð.

Alfreð komst aftur almennilega á skrið á sínum ferli eftir áramót þegar hann var keyptur til þýska liðsins Augsburg. Eftir erfitt hálft annað ár hjá Real Sociedad og Olympiacos byrjaði Alfreð að raða inn mörkunum á nýjan leik.

Hann skoraði sjö mörk í fjórtán leikjum og var ein helsta ástæða þess að Augsburg hélt sæti sínu í þýsku 1. deildinni. Alfreð skoraði ekki bara mörk heldur mikilvæg mörk sem tryggði Augsburg mikilvæg stig í fallbaráttunni.

„Ég tek undir með Birki að það gefur manni sjálfstraust að koma inn á svona mót eftir góða leiktíð,“ sagði Alfreð.

„Sjálfstraust er ekki eitthvað sem maður tínir upp af götunni. Ef ég tala bara fyrir sjálfan mig þá líður mér mjög vel og ég hef verið að skora mörk,“ sagði Alfreð Finnbogason.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×