Fótbolti

Birkir Már: Þurfum að halda okkur á jörðinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir/getty
Birkir Már Sævarsson, hægri bakvörður Íslands, segir að það hafi verið rosaleag mikilvægt að fá jöfnunarmark snemma í síðari hálfleik. Hann segir liðið geta vel við unað eftir 1-1 jafntefli gegn Portúgal.

„Ég er ótrúlega ánægður með frammistöðu liðsins og eitt stig. Ég er mjög ánægður," sagði Birkir Már við Vísi í leikslok.

„Varnarleikurinn var frekar solid. Þeir fengu nokkur færi, en það er kannski ekki hægt að halda þeim alveg frá markinu."

„Hannes gerði vel í því sem kom á markið," sagði Birkir sem leið segir að það hafi ekkert verið mjög mikið stress í byrjun.

„Það var ekkert alltof mikið stress. Menn voru bara klárir í slaginn. Það er alltaf smá auka fiðrildi í maganum fyrir svona leik, en við vorum fljótir að fá það úr systeminu."

„Það var ótrúlega mikilvægt að fá mark snemma og þeir koðnuðu aðeins niður. Mér fannst við vera með þokkalega góða stjórn á þessu varnarlega."

„Í hálfleik töluðum við um að halda áfram. Fyrir utan einn eða tvo sénsa þá vorum við þokkalega sáttir með varnarleikinn."

„Við hefðum viljað vera aðeins meira með boltann, en það var við búið að við værum að elta meira."

Næsti leikur Íslands er gegn Ungverjum á laugardag og er Birkir spenntur fyrir þeim leik.

„Nú þurfum við að halda okkur á jörðinni. Það er leikur eftir nokkra daga og þá byrjum við upp á nýtt og reynum að vinna þann leik," sagði Birkir Már að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×