Fótbolti

Ronaldo átt 20 skot á EM án þess að skora

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ronaldo skýtur og skýtur en það fer ekkert inn.
Ronaldo skýtur og skýtur en það fer ekkert inn. vísir/epa
Það hefur nákvæmlega ekkert gengið upp hjá Cristiano Ronaldo, stórstjörnu Portúgala, á EM sem stendur nú yfir í Frakklandi.

Portúgal hefur gert jafntefli í báðum leikjum sínum til þessa í F-riðli, fyrst gegn Íslandi á þriðjudaginn og svo gegn Austurríki í gærkvöldi.

Ronaldo verður ekki sakaður um að hafa ekki verið að reyna í leikjunum tveimur. Real Madrid-maðurinn átti 10 skot í báðum leikjunum og því 20 skot í heildina án þess að skora.

Til að setja þessar tölur í eitthvað samhengi, þá hefur Ronaldo átt fleiri skot en níu lið á EM.

Fjórtán af þessum 20 skotum hafa komið fyrir utan teig en aðeins sex inni í teignum. Ronaldo komst næst því að skora gegn Austurríki í gærkvöldi þegar vítaspyrna hans hafnaði í stönginni.

Þrátt fyrir svekkjandi úrslit í gær var leikurinn gegn Austurríki sögulegur fyrir Ronaldo.

Hann lék sinn 129. landsleik fyrir Portúgal í gær og sló þar með leikjamet Luís Figo með landsliðinu.

Leikurinn í gærkvöldi var einnig sextándi leikur Ronaldos í lokakeppni EM en hann er leikjahæstur í sögu keppninnar ásamt Frakkanum Lilian Thuram og Hollendingnum Edwin van der Sar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×