Enski boltinn

Europol: Mikil hryðjuverkaógn á EM í Frakklandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mikil öryggisgæsla verður á EM.
Mikil öryggisgæsla verður á EM. vísir/getty
Rob Wainwright, yfirmaður Evrópulögreglunnar, Europol, segir að Evrópumótið í fótbolta sé augljóst skotmark hryðjuverkasamtakanna íslamska ríkisins.

Wainwright hélt fyrirlestur eftir að bandaríska ríkið varaði við Bandaríkjamenn sem ætla sér á EM við mögulegum hættum í Evrópu í sumar.

Bandaríska utanríkisráðuneytið talaði þar sérstaklega um Evrópumótið í fótbolta sem hefst 10. júní og lýkur 10. júlí en þar verða strákarnir okkar á meðal keppenda í fyrsta sinn í sögunni.

Wainwright tók undir áhyggjur Bandaríkjamannanna og sagði: „Ég efast ekki um að Evrópumótið er á mögulegum lista yfir skotmörk hjá ISIS og það af augljósum ástæðum. Það er frekar augljós ályktun.“

Hann benti samt á að frönsk yfirvöld verða með gríðarlega öryggisgæslu á mótinu og hafa fengið aðstoð lögreglu frá öllum þátttökuþjóðunum. Þar á meðal Íslandi.

„Varúðarstigið er hátt en ég tel að hættan sé ekki alveg svo mikil því gerðar hafa verið ráðstafanir. Frakkarnir verða með mikla gæsla og hafa bæði kallað á fleiri lögreglumenn og virkjað herinn,“ sagði Rob Wainwright.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×