Fótbolti

Alfreð: Elska að skora mörk

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alfreð kom Íslandi í 3-0 á 42. mínútu.
Alfreð kom Íslandi í 3-0 á 42. mínútu. vísir/eyþór
Alfreð Finnbogason skoraði sitt áttunda landsliðsmark þegar Ísland vann öruggan 4-0 sigur á Liechtenstein í síðasta vináttulandsleik íslenska liðsins áður en það heldur til Frakklands á morgun.

„Þetta var mjög gott. Planið var að rífa okkur upp eftir Noregsleikinn og kveðja fólkið með stæl. Þetta er ekki sterkasti andstæðingurinn en við unnum okkar vinnu og kláruðum þetta eins og menn,“ sagði Alfreð í samtali við blaðamenn eftir leikinn í kvöld.

„Við reyndum að hugsa ekki um að þetta væri Liechtenstein, allavega í varnarvinnunni. Við vorum meira að undirbúa okkur fyrir EM en að hugsa um andstæðinginn. Það voru ákveðin atriði sem gengu mjög vel,“ bætti framherjinn við.

Sjá einnig: Einkunnir Íslands: Birkir Már bestur í jöfnu liði Íslands

Hann segir að leikurinn í kvöld hafi ekki verið hugsaður sem undirbúningur fyrir einhverja sérstaka andstæðinga á EM.

„Í rauninni ekki. Eini leikurinn sem við erum að hugsa um er Portúgalsleikurinn,“ sagði Alfreð en Íslendinga mæta Cristiano Ronaldo og félögum í portúgalska landsliðinu í Saint-Étienne 14. júní.

Hann segir að það hafi verið gott að skora svona skömmu fyrir mót.

„Ekki spurning. Ég neita því ekkert að ég elska að skora mörk og er alltaf sáttur þegar ég næ að gera það fyrir landsliðið,“ sagði Alfreð sem hefur skorað þrjú af átta mörkum sínum fyrir landsliðið eftir að undankeppni EM 2016 lauk síðasta haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×