Enski boltinn

Sagt að Gylfi Þór og Fabianski verði látnir spila en velska tvíeykið fær frí

Tóams Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór fær líklega ekki stutt sumarfrí fyrr en eftir næstu helgi.
Gylfi Þór fær líklega ekki stutt sumarfrí fyrr en eftir næstu helgi. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður Íslands í fótbolta, og Lukasz Fabianski, landsliðsmarkvörður Póllands, verða væntanlega í liði Swansea sem mætir West Ham í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Á sama tíma er talið að velska tvíeykið Ashley Williams og Neil Taylor sé komið í snemmbúið sumarfrí til að gefa þeim auka hvíld fyrir Evrópumótið í Frakklandi, en þetta kemur fram á velska fréttavefnum South Wales Evening Post sem fylgist vel með Swansea-liðinu.

Eftir að Swansea endanlega tryggði sér sæti í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð með 3-1 sigri á Liverpool um síðustu helgi ýjaði Francesco Guidolin, knattspyrnustjóri liðsins, að því að minni spámenn fái tækifæri í síðustu tveimur leikjunum.

Alan Curtis, aðstoðarmaður hans, ýjaði að því að fyrirliðinn Ashley Williams og Neil Taylor verði báðir hvíldir gegn West Ham um helgina. Þeir verða báðir með Wales í Frakklandi í sumar.

Reiknað er aftur á móti með því að Gylfi Þór og Fabianski spili en þeir gætu svo fengið frí í lokaleik tímabilsins gegn Manchester City.

„Vonandi verður þetta tækifæri til að hvíla nokkra af lykilmönnum liðsins, sérstaklega þar sem Evrópumótið er framundan. Þetta er tækifæri til að gefa ungu strákunum tækifæri og öðrum sem hafa ekki fengið mörg tækifæri,“ segir Alan Curtis.

„Þetta eru samt tveir erfiðir leikir gegn West Ham og Manchester City. Við viljum því ekki bara henda ungu strákunum í djúpu laugina,“ segir Alan Curtis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×