Íslenski boltinn

Elvar Páll tryggði Leiknismönnum sigur á Íslandsmeisturunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elvar Páll tryggði Leikni sigur á FH.
Elvar Páll tryggði Leikni sigur á FH. vísir/ernir
Leiknir R. bar sigurorð af FH með tveimur mörkum gegn einu í lokaumferð riðlakeppninnar í Lengjubikarnum.

Þetta var fyrsta tap FH í riðli 4 en liðið vann fjóra fyrstu leiki sína með markatölunni 11-0.

Emil Pálsson, besti leikmaður Pepsi-deildarinnar í fyrra, kom FH í 0-1 á 22. mínútu og þannig var staðan þangað til Óttar Bjarni Guðmundsson jafnaði metin á 64. mínútu.

Það var svo Elvar Páll Sigurðsson sem tryggði Breiðhyltingum sigurinn með marki 11 mínútum fyrir leikslok.

Leiknir endar því í 2. sæti riðils 4 með 11 stig, einu minna en FH. Bæði lið fara áfram í 8-liða úrslit keppninnar.

Í riðli 2 vann Selfoss stórsigur á Fjarðabyggð, 4-0.

Arnór Gauti Ragnarsson, Haukur Ingi Gunnarsson, Ragnar Þór Gunnarsson og Arnór Ingi Gíslason skoruðu mörk Selfyssinga sem unnu þarna sinn fyrsta sigur í riðlinum.

Austfirðingar, sem léku manni færri í 71 mínútu í dag, töpuðu hins vegar öllum sínum fimm leikjum með markatölunni 3-21.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×