Innlent

Stormur í veðurkortum helgarinnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Seint í nótt og á morgun má búast við hvassviðri eða stormi um landið norðvestanvert með snjóbyl og litlu skyggni.
Seint í nótt og á morgun má búast við hvassviðri eða stormi um landið norðvestanvert með snjóbyl og litlu skyggni. vísir/auðunn
Veðurstofan spáir norðan hvassviðri eða stormi með snjókomu norðanlands um helgina en sunnanlands verður að mestu þurrt.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að skil liggi nú yfir norðan- og austanverðu landinu með ákveðinni suðaustan átt og ofankomu en þau mjakast smám saman norðaustur af landinu þegar líður á daginn. Þá situr eftir suðvestan átt með éljum.

Hann snýst svo í vaxandi norðaustan átt í kvöld með snjókomu norðan til á landinu og er sums staðar spáð talsverðri ofankomu. Seint í nótt og á morgun má svo búast við hvassviðri eða stormi um landið norðvestanvert með snjóbyl og litlu skyggni, en bætir hægt og rólega í vind í öðrum landshlutum. Annað kvöld verður snjókoma um allt Norðurland en úrkomulítið sunnanlands.

Veðurhorfur á landinu:

Suðaustan 8-15 metrar á sekúndu og snjókoma eða slydda um landið norðan- og austanvert fram eftir morgni, en annars suðvestan 8-13 og él. Snýst í vaxandi norðaustan átt með talsverðri snjókomu norðan til á landinu í kvöld. Norðaustan 15-23 um landið norðvestan til seint í nótt og á morgun og snjókoma. Annars mun hægari vindur og él, en bætir heldur í vind þegar líður á daginn. Snjókoma um landið norðanvert annað kvöld, en úrkomulítið sunnantil. Hiti um og undir frostmarki, mildast við sjávarsíðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×