Innlent

Útrýming fjölbýla á hjúkrunarheimilum myndi kosta sjö milljarða

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Á fjórða hundrað eldri borgara bíða eftir því að komasta á hjúkrunarheimili.
Á fjórða hundrað eldri borgara bíða eftir því að komasta á hjúkrunarheimili. vísir/vilhelm
Það myndi kosta um sjö milljarða króna að útrýma tvíbýlum á öldrunarheimilum landsins. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við skriflegri fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur þingmanns Framsóknarflokksins.

Í svarinu kemur fram að 2.646 hjúkrunarrými séu á landinu. Af þeim eru 2.133 einbýli, 469 tvíbýli og 33 þríbýli. Ekki fengust upplýsingar um fimm hjúkrunarrými. Þrjátíu þríbýli, af 33, eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu en langstærstu hluti tvíbýlanna, 300 talsins, eru einnig staðsett á höfuðborgarsvæðinu.

Af þríbýlunum 33 er 24 að finna á hjúkrunarheimilinu Eir en þríbýlin þrjú, sem ekki er að finna á höfuðborgarsvæðinu, eru á heilbrigðisstofnuninni á Patreksfirði. Fæst tvíbýli er að finna í heilbrigðisumdæmi Vesturlands en af 211 hjúkrunarrýmum eru aðeins tvö tvíbýli. Bæði er að finna á Hólmavík.

Í svarinu kemur einnig fram að í áætlun um byggingu nýrra hjúkrunarrýma er megináherslan lögð á fjölgun hjúkrunarrýma. Í viðmiðum er gerð sú krafa að hver íbúi hafi ákveðið einkarými út af fyrir sig en einbýlum hefur farið jafnt og þétt fjölgandi eftir að þau voru tekin í gagnið. Svarið í heild sinni má sjá hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×