Fótbolti

Gríski dómarinn er yngri en Eiður Smári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anastasios Sidiropoulos
Anastasios Sidiropoulos
Gríski dómarinn Anastasios Sidiropoulos mun dæma leik Íslands og Kasakstan í undankeppni EM 2016 en leikurinn fer fram á Astana-leikvanginum á laugardaginn.

Anastasios Sidiropoulos hefur rokið upp metorðastigann á stuttum tíma en það tók hann aðeins tvö og hálft ár að komast upp í elítuflokk UEFA-dómara frá því að hann fékk alþjóðlegu dómararéttindin árið 2011.

Sidiropoulos verður ekki 36 ára fyrr en í haust og hann er því einu ári yngri en íslenski landsliðsmaðurinn Eiður Smári Guðjohnsen.

Sidiropoulos hefur þegar dæmt tvo leiki í undankeppninni, annars vegar 5-1 sigur Spánverja á Makedóníumönnum í september og hins vegar 1-0 sigur Portúgals á Armeníu í nóvember. Alls fóru ellefu gul spjöld á loft hjá honum í þessum tveimur leikjum en rauða spjaldið fór aftur á móti ekki úr vasa hans.

Anastasios Sidiropoulos vakti þó líklega mesta athygli þegar hann dæmdi leik Manchester City og CSKA Moskvu í Meistaradeildinni í nóvember.

Rússarnir unnu leikinn 2-1 þar sem Grikkinn gaf City-mönnunum Fernandinho og Yaya Touré báðum rautt spjald. Yaya Touré fékk beint rautt spjald á 82. mínútu en Fernandinho fékk sitt annað gula spjald á 70. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×