Innlent

Ætlar að styðja afturvirkar hækkanir til aldraðra og öryrkja: „Við erum gjörsamlega búin að tapa þessari umræðu“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar næst að greiða atkvæði með því að öryrkjar og aldraðir fái afturvirkar hækkanir á bótum en í vikunni greiddi hann atkvæði gegn breytingatillögu minnihlutans á Alþingi við fjáraukalög sem hefðu hækkað bæturnar afturvirkt. Tillaga minnihlutans um sama efni við fjárlagafrumvarp næsta árs liggur fyrir þinginu.

Á Facebook-síðu sinni í gær greindi Ásmundur frá því að hann hefði gert mistök með því að greiða atkvæði gegn tillögunni í vikunni, og hann ræddi málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

 

„Þessi krafa er bara svo rík að við erum gjörsamlega búin að tapa þessari umræðu og ég segi bara að ég var ekki á tánum. Ég var ekki með allar upplýsingarnar fyrir framan mig til að geta staðið upp og gert grein fyrir atkvæði mínu og það hafa örugglega verið fleiri því svo um kvöldið fengum allir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ýmsar upplýsingar um stöðuna,“ segir Ásmundur sem segist hafa sent svarpóst á alla þingmenn þar sem hann sagði að það væri of seint að senda slökkviliðið á vettvang þegar húsið væri brunnið.

Ásmundur segist hafa verið mikill baráttumaður fyrir aldraða og öryrkja en nú sé hann málaður upp sem vondi kallinn.

„Mér líður illa með þetta, ég bara viðurkenni það.“

Hann segir að það eigi að leita leiða til að taka eitthvað af þeirri hækkun bóta sem koma á til framkvæmda þann 1. janúar og færa til 1. júní.

„Þá kæmi einhver hækkun svipuð hækkun og var í samningunum þá og svo kæmi restin af þessum 9,7 prósentum til framkvæmda núna. Ég gæti trúað því að þetta gæti kostað svona 2,5 til 3 milljarða en svo kæmi einhverjar 800 milljónir til baka í formi skatta.“

Hlusta má á viðtalið við Ásmund í spilaranum hér að ofan.

Að gera betur.Það hefur tekist á í höfðinu á mér af hverju ég var ekki betur undirbúin í umræðuna um bætur...

Posted by Ásmundur Friðriksson on Thursday, 10 December 2015

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×