Íslenski boltinn

Hallgrímur Mar aftur til KA

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hallgrímur Mar er kominn aftur í gult.
Hallgrímur Mar er kominn aftur í gult. mynd/KA
Hallgrímur Mar Steingrímsson er genginn aftur í raðir 1. deildarliðs KA en hann kemur frá Víkingi R. þar sem hann lék í sumar.

Hallgrímur, sem er 25 ára kantmaður, var meiddur framan af síðasta tímabili en kom sterkur inn í Víkingsliðið seinni hluta móts og skoraði fjögur mörk í 14 deildarleikjum.

Hallgrímur, sem er uppalinn hjá Völsungi á Húsavík, þekkir vel til hjá KA en hann lék með Akureyrarliðinu 2009-14. Hallgrímur hefur alls leikið 101 deildarleik með KA og skorað í þeim 26 mörk.

KA hefur verið í 1. deild frá árinu 2005 en þrátt fyrir að hafa tjaldað miklu til tókst liðinu ekki að vinna sér sæti í Pepsi-deildinni í sumar.

KA endaði í 3. sæti með 41 stig, þremur stigum á eftir Þrótti sem var í 2. sætinu. KA-menn komust auk þess í undanúrslit Borgunarbikarsins og úrslit Lengjubikarsins.

Eftir tímabilið var gengið frá því að Srdjan Tufegdzic verði þjálfari KA næstu tvö árin en hann tók við liðinu af Bjarna Jóhannssyni um mitt síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×