Viðskipti erlent

Hagnaður Porsche helmingast frá síðasta ári

sæunn gísladóttir skrifar
Porsche á yfir 30 prósent af hlutabréfum Volkswagen.
Porsche á yfir 30 prósent af hlutabréfum Volkswagen. vísir/valli
Hagnaður Porsche fyrir skatt á fyrstu níu mánuðum ársins var helmingi lægri en á sama tímabili á síðasta ári. Hagnaðurinn nam 1,19 milljörðum evra, jafnvirði 167 milljarða íslenskra króna. Forsvarsmenn Porsche greindu frá því í síðasta mánuði að afkoman yrði undir væntingum vegna áhrifa af dísilsvindli Volkswagen, en Volkswagen Group framleiðir Porsche bílana.

Fyrirtækið áætlar nú að hagnaður ársins muni nema milli 800 og 1.800 milljóna evra, eða milli 113 og 253 milljarða íslenskra króna. Það er veruleg lækkun milli ára, en hagnaður Porsche nam þremur milljörðum evra, eða 424 milljörðum íslenskra króna, árið 2014.

Porsche á 30,8 prósent af hlutafé Volkswagen. Hlutabréfaverð VW þess hefur lækkað um helming síðan greint var frá svindlinu í byrjun september sem hefur því haft veruleg áhrif á stöðu Porsche sem og VW. Í síðasta mánuði greindi Volkswagen frá fyrsta tapi á ársfjórðungi í yfir fimmtán ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×