Fótbolti

Ungverjar slógu út Norðmenn og eru á leið á EM

Ungverjar fagna marki sínu í kvöld.
Ungverjar fagna marki sínu í kvöld. Vísir/Getty
Ungverjaland er á leið á Evrópumótið í Frakklandi næsta sumar eftir að liðið vann Noreg í báðum leikjum liðanna um laust sæti á mótinu. Þeir unnu síðari leik liðanna í kvöld, 2-1.

Ungverjaland vann fyrri leikinn 0-1 í Noregi með marki Laslo Kleinheisler og voru í afar góðri stöðu fyrir leikinn í kvöld sem spilaður var í Búdapest.

Fyrra mark leiksins kom á fjórtándu mínútu og það gerði Tamas Piskin með laglegu skoti framhjá Ørjan Nyland í marki Noregs.

Noregur gerði tvöfalda breytingu í hálfleik þar sem meðal annars Martin Ødegaard, leikmanni Real Madrid, var skipt af velli í hléi.

Norðmönnum gekk illa að skora í síðari hálfleik og Ungverjaland bætti við öðru marki á 83. mínútu. Þar var sjálfsmark eftir hornspyrnu, en Markus Henriksen varð fyrir því óláni að setja boltann í stöngina og inn á sínu eigin marki.

Markus Henriksen var ekki hættur en hann skoraði annað mark sitt, en nú í rétt mark, mínútu fyrir leikslok. Nær komust Norðmenn ekki og lokatölur 2-1 sigur Ungverja og samanlagt 3-1.

Unverjaland verður því ásamt Íslandi og fleiri liðum á Evrópumótinu í Frakklandi næsta sumar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×