Fótbolti

Keane: Verður í lagi ef við förum ekki til Saipan

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Roy Keane gerði allt vitlaust á HM 2002.
Roy Keane gerði allt vitlaust á HM 2002. vísir/getty
Roy Keane, aðstoðarþjálfari írska landsliðsins í fóbolta, var eðlilega í skýjunum með 2-0 sigur sinna manna gegn Bosníu í umspili um sæti á HM 2016 í gær.

Með sigrinum tryggði Írland sig inn á annað Evrópumótið í röð, en Írar höfnuðu í þriðja sæti í sínum riðli á eftir Þýskalandi og Póllandi.

Í viðtali við írska ríkissjónvarpið eftir leik grínaðist Keane með frægt atvik frá HM 2002 þegar hann var fyrirliði liðsins.

Keane gagnrýndi þá æfingaaðstöðu írska landsliðsins í Saipan í Japan harkalega í blaðaviðtalið og reifst svo við þjálfarann Mick McCarthy á liðsfundi, en þjálfarinn var vægast sagt óánægður með viðtalið.

Keane var sendur heim og neitaði að spila aftur fyrir landsliðið undir stjórn McCarthys, en eins og gefur að skilja hjálpaði það írska liðinu ekki mikið að missa fyrirliðann sinn og einn besta leikmann liðsins.

„Við höfum gert þetta áður. Svo lengi sem við verðum ekki í Saipan verður þetta í góðu lagi,“ sagði Keane í viðtali við RTÉ.

„Við förum ekki á EM bara til að vera með. Við förum til að gera þjóðina stolta, standa okkur vel og gera okkar besta. Það er ekki hægt að biðja um meira,“ sagði Roy Keane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×