Íslenski boltinn

Oliver til skoðunar hjá Arminia Bielefeld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Oliver í leik gegn Víkingi í sumar.
Oliver í leik gegn Víkingi í sumar. Vísir/Ernir
Oliver Sigurjónsson gæti verið á leið frá Breiðabliki en þessi öflugi miðjumaður er nú til skoðunar hjá þýska B-deildarfélaginu Arminia Bielefeld.

Þetta kom fyrst fram á Blikar.is en Oliver segir í samtali við Vísi í dag að hann haldi til Þýskalands um helgina.

„Þeir vilja skoða mig og ég vil skoða þá. Ef áhugi er til staðar hjá báðum aðilum er aldrei að vita hvað gerist. Það er bara þessi gamla góða klisja,“ segir Oliver í léttum dúr.

Sjá einnig: Skosk og þýsk lið sýna Oliver áhuga

Hann segist opinn fyrir því að spila í Þýskalandi. „Þetta er spennandi. Ég vil að minnsta kosti skoða þetta vel og sjá hvað þeir hafa upp á að bjóða.“

„Það skiptir máli að finna fyrir trausti þjálfarns og fá mínútur. Ég vil bæta mig, bæði sem manneskja og sem leikmaður.“

Oliver var einn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar í sumar og mikilvægur hlekkur í sterkri vörn Breiðabliks sem endaði í öðru sæti deildarinnar.

Sjá einnig: Oliver efnilegastur að mati Pepsi-markanna

„Ég lærði mikið af þessu tímabili í sumar og er ánægður með það. Ég bætti mig jafnt og þétt og fann sjálfstraustið vaxa með hverjum leiknum,“ segir Oliver sem var reyndar staddur í skoðunarferð á Nou Camp, heimavelli Barcelona, þegar Vísir sló á þráðinn til hans.

„Jú, ætli ég sé ekki að skoða mig um hér,“ sagði hann og hló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×