Rafa Benitez, knattspyrnustjóri Real Madrid, hefur komið leikmanni sínum, Karim Benzema, til varnar eftir að Benzema gisti fangaklefa á dögunum fyrir aðild sína að fjárkúgunarmáli sem tengist liðsfélaga hans úr franska landsliðinu.
Benzema var á dögunum færður í varðhald lögreglunnar í tengslum við rannsókn hennar á meintri fjárkúgun sem franska landsliðsmanninum Mathieu Valbuena barst í sumar.
Sjá einnig:
Benzema handtekinn vegna fjárkúgunar
Djibril Cisse, fyrrum leikmaður Rafa Benitez hjá Liverpool og franska landsliðsins, var talinn vera höfuðpaurinn í málinu en hann var handtekinn í upphafi október fyrir aðild sína að málinu.
Lögmaður Benzema hefur lýst yfir sakleysi skjólstæðings síns en þetta er í annað sinn sem hann ratar í fjölmiðlanna vegna kynlífshneykslis.
Var mál gegn honum og Franck Ribery látið falla niður á sínum tíma þegar þeir voru sakaðir um að hafa stundað kynlíf með vændiskonu sem reyndist ólögráða.
Sjá einnig:
Fullyrt að Benzema hafi játað sök | Ákæra gefin út
Benzema er meiddur þessa dagana og hefði ekki verið með liðinu gegn Sevilla í dag en þrátt fyrir allt sem hefur komið upp segist Benitez standa við bakið á sínum manni.
„Ég ræddi við hann og ég sagði honum bara að einbeita sér að því að ná sér af meiðslunum og að vera klár í slaginn þegar hann kemur aftur út á völlinn. Hann er við það að snúa aftur á völlinn og vonandi verður þessu máli lokið þegar það kemur að því. Hann var nokkuð brattur þrátt fyrir allt sem hefur komið upp.“