Íslenski boltinn

Hlynur Atli snýr aftur í Fram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hlynur Atli, Ásmundur og Zeljko.
Hlynur Atli, Ásmundur og Zeljko. Mynd/Heimasíða Fram
Hlynur Atli Magnússon skrifaði í dag undir þriggja ára samning við 1. deildarlið Fram og snýr því aftur til síns uppeldisfélags.

Hlynur Atli er 25 ára og getur bæði spilað í vörn og á miðju. Hann lék sinn fyrsta leik með meistaraflokki Fram árið 2008 en skipti yfir í Þór á Akureyri og lék með liðinu frá 2013 til 2014. Hann spilaði svo í Noregi í fyrra.

Fram samdi við sama tækifæri við Zeljko Óskar Sankovic um að taka að sér yfirmannstöðu afreksþjálfunar knattspyrnudeildar Fram auk þess sem hann kemur inn í þjálfarateymi meistaraflokks.

Ásmundur Arnarsson, fyrrum þjálfari Fjölnis, Fylkis og ÍBV, tók í haust við starfi þjálfara meistaraflokks karla hjá Fram.

Hlynur Atli er eldri bróðir Harðar Björgvins Magnússonar, leikmanns Cesena á Ítalíu og íslenska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×