Fótbolti

Íslensku stelpurnar spila rétt hjá landamærum sem heimspressan fylgist vel með

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Íslenska kvennalandsliðið mætir Slóveníu í dag í þriðja leik sínum í undankeppni EM 2017 en íslensku stelpurnar hafa unnið tvo fyrstu leiki sína í keppninni.

Leikurinn fer fram á Lendava Sports Park leikvanginum í Lendava sem er rúmlega ellefu þúsund manna bær á landsmærum Slóveníu og Ungverjalands jafnframt því að vera ekki fjærri landamærunum Slóveníu og Króatíu.

Landamæri Slóveníu við Ungverjaland og Króatíu eru núna pólitískt hitasvæði þar sem straumur flóttafólks frá Sýrlandi liggur nú til Slóveníu eftir að Ungverjar lokuðu landamærum sínum.

Flóttafólkið er að reyna komast norður til Austurríkis og Þýskalands og leið þeirra liggur nú í gegnum Slóveníu í stað Ungverjalands áður.

Slóvenska kvennalandsliðið spilar þrjá heimaleiki í haust og þeir fóru allir fram á mismundandi leikvöllum. Hinir leikirnir, 3-0 tapleikur á móti Slóveníu í september og 3-0 sigurleikur á móti Hvíta-Rússlandi fyrir viku voru spilaðir allt annars staðar í landinu.

Leikurinn við Skota fór fram Ajdovscina í vesturhluta Slóveníu og leikurinn á móti Hvíta-Rússlandi fór fram í Kranj sem er í norðurhluta Slóveníu.

Leikurinn við Ísland er hinsvegar spilaður í Lendava sem er alveg austast í Slóveníu við landamærin við Ungverjaland.

Leikur Íslands og Slóveníu hefst klukkan 17.00 að íslenskum tíma og verður í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×