Fótbolti

Litla Ísland er haldreipi hollensku stjarnanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Vísir/Vilhelm
Íslensku landsliðsstrákarnir þurfa bara að treysta á sig sjálfa í baráttunni um toppsæti A-riðils undankeppni EM 2016 þrátt fyrir að hafa misst Lettaleikinn niður í jafntefli um helgina. Íslenska liðið var ósigrað á Laugardalsvelli í undankeppninni sem hefur ekki gerst áður.

Íslenska karlalandsliðinu tókst ekki að vinna Lettland en strákarnir okkar héldu áfram að endurskrifa íslenska knattspyrnusögu með því að gera jafntefli við Lettana á laugardaginn. Þetta er fyrsti undanriðill karlalandsliðs Íslands fyrir HM eða EM þar sem íslenska landsliðið tapar ekki leik á Laugardalsvellinum.

Íslenska liðið gerði reyndar „bara“ jafntefli í síðustu tveimur heimaleikjum sínum á móti tveimur neðstu liðum riðilsins en hafði áður unnið leiki sína við Tyrkland, Holland og Tékkland í Laugardalnum. Ísland hafði minnst áður tapað einum heimleik í undanriðli en því hafði íslenska liðið náð átta sinnum. Nú er liðið hins vegar ósigrað í fimm heimaleikjum sínum.

Kolbeinn Sigþórsson og Gylfi Þór Sigurðsson komu Íslandi í 2-0 í fyrri hálfleik en íslenska liðið var óþekkjanlegt í seinni hálfleiknum þar sem Lettar náðu að tryggja sér jafntefli. Íslenska liðið getur síðan þakkað Tyrkjum fyrir að liðið er áfram í toppsæti A-riðilsins því Tyrkir unnu Tékka 2-0 í Tékklandi. Ísland er því með eins stigs forskot á Tékka fyrir lokaumferðina.

Íslensku strákarnir flugu til Tyrklands í gær þar sem liðið spilar lokaleik sinn við heimamenn á þriðjudaginn. Það er mikið undir fyrir fjórar þjóðir í þeim leik. Ísland er í baráttunni við Tékka um efsta sæti riðilsins og Tyrkir eru í baráttunni við Hollendinga um þriðja sætið riðilsins og þar með sæti í umspilinu.

Hollendingar, stigalausir í leikjunum tveimur á móti Íslandi, þurfa nú hjálp Íslendinga til að halda EM-draumi sínum á lífi. Hollendingar þurfa nefnilega að ná betri úrslitum en Tyrkir í síðustu umferðinni þegar Holland tekur á móti Tékklandi á Amsterdam Arena á sama tíma og Ísland spilar við Tyrkland.

Það að litla Ísland sé haldreipi Hollendinga í lokaumferðinni er enn einn kaflinn í þessari ótrúlegu undankeppni sem enginn hefði getað séð fyrir. Íslenska liðið þarf þó ekki að vinna Tyrkjaleikinn fyrir Hollendinga heldur þarf liðið sigur til að tryggja sér sigur í riðlinum og sæti í þriðja styrkleikaflokki (af fjórum) þegar dregið verður í riðla í úrslitakeppninni í Frakklandi.


Tengdar fréttir

Róbert: Ekki hægt að sleppa svona tækifæri

Róbert Örn Óskarsson sendi Hannesi batakveðjur á leiðinni út í flugvél til Tyrklands en hann fékk frí í vinnuni til þess að taka þátt í landsliðverkefninu.

Ísland heldur toppsætinu eftir sigur Tyrkja í Tékklandi

Tyrkland vann 2-0 sigur á Tékklandi í Prag í kvöld en sigur Tyrkja þýðir að Ísland heldur toppsæti riðilsins þegar aðeins ein umferð er eftir þrátt fyrir að hafa aðeins náð jafntefli gegn Lettlandi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×