Fótbolti

Zlatan skoraði en Svíar í umspil | Rússar komnir á EM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zlatan fer í umspil aðra undankeppnina í röð.
Zlatan fer í umspil aðra undankeppnina í röð. vísir/getty
Rússland varð nú rétt í þessu 17. þjóðin til að tryggja sér farseðilinn til Frakklands næsta sumar, en Rússar náðu öðru sætinu í G-riðli undankeppni EM 2016 með 2-0 sigri á Svartfjallalandi á heimavelli.

Oleg Kuzmin kom Rússum yfir á 33. mínútu og Aleksandr Kokorin tvöfaldaði forskotið með marki úr vítaspyrnu fjórum mínútum síðar. Fleiri mörk voru ekki skoruð.

Rússar voru tveimur stigum á undan Svíþjóð fyrir lokaumferðina í dag og þurftu að vinna því Zlatan Ibrahimovic og félagar áttu fyrir höndum þægilegan leik gegn Moldóvu.

Zlatan skoraði fyrra mark Svía í 2-0 sigri á heimavelli á 24. mínútu og Erkan Zengin það síðara í byrjun seinni hálfleiks en það dugði ekki til.

Rússar náðu öðru sætinu með 20 stig en Svíar hafna í því þriðja með 18 stig og þurfa að fara í umspil um sæti á EM 2016.

Austurríki kórónaði frábæra frammistöðu sína í riðlakeppninni með 3-0 sigri á Lichtenstein og vann riðilinn með 28 stig af 30 mögulegum.

Austurríki var löngu búið að tryggja sér farseðilinn á EM, en liðið varð fimmta þjóðin sem komst til Frakklands. Bara gestgjafar Frakka, Englendingar, Tékkar og Íslendingar voru á undan Austurríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×