Fótbolti

Þaulreyndur ítalskur dómari með flautuna í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gianluca Rocchi, dómari frá Ítalíu.
Gianluca Rocchi, dómari frá Ítalíu. Vísir/Getty
Það verða ítalskir dómarar sem verða við stjórnvölinn þegar Tyrkland mætir Íslandi í undankeppni EM 2016 í kvöld. Hinn 42 ára Gianluca Rocchi verður dómari leiksins en hann hefur verið umdeildur í heimalandi sínu.

Rocchi hefur verið með alþjóðleg dómararéttindi undanfarin sjö ár og dæmt í undankeppni HM og EM, Meistaradeild Evrópu, Evrópudeild UEFA, Ólympíuleikunum í London og HM U-23 ára.

Hann dæmdi til að mynda viðureign Tékklands og Hollands í sama riðli þegar liðin mættust síðastliðið haust en hann hefur einnig dæmt stóra leiki í undankeppninni, til að mynda hjá Portúgal og Englandi.

Hann hefur einnig dæmt leiki hjá sterkum félagsliðum utan heimalandsins, svo sem Arsenal, Atletico Madrid, Bayern München, Chelsea og Manchester United. Hann dæmdi einnig viðureign Barcelona og Manchester City í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu fyrr á þessu ári.

Þess má einnig geta að hann dæmdi leik Argentínu og Mexíkó í undanúrslitum HM U-23 ára árið 2013.

Rocchi hefur þó verið umdeildur í heimalandi sínu og þótt bæði spjaldaglaður og gjarn á að dæma vítaspyrnur. Hann vakti þá athygli þegar hann dæmdi viðureign Manchester City og Real Madrid í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu árið 2012.

Rocchi dæmdi City umdeilda vítaspyrnu í leiknum og rak um leið Alvaro Arbeloa, leikmann Real, af velli. Honum tókst þó einnig að reita City-menn til reiði í leiknum og rak David Platt, þáverandi aðstoðarþjálfara City, upp í stúku en hann gaf alls sjö áminningar í leiknum.

Leikur Tyrklands og Íslands hefst klukkan 18.45 og verður lýst beint á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×