Íslenski boltinn

Heimir: Lærðum af Blikaleiknum

Ingvi Þór Sæmundsson í Kaplakrika skrifar
Heimir fagnar ásamt aðstoðarmönnum sínum.
Heimir fagnar ásamt aðstoðarmönnum sínum. vísir/þórdís
Heimir Guðjónsson stýrði FH-ingum til sjöunda Íslandsmeistaratitilsins í sögu félagsins í dag þegar Hafnfirðingar lögðu Fjölni að velli, 2-1, á heimavelli sínum.

Heimir hefur tekið þátt í að vinna alla þessa sjö meistaratitla, fyrst sem fyrirliði, svo sem aðstoðarþjálfari og loks sem þjálfari. Hann segir þennan titil sætan þótt hann toppi ekki þann fyrsta sem FH vann árið 2004.

"2004-titilinn verður alltaf sá sætasti í mínum huga. Þá var ég fyrirliði og þetta var fyrsti titilinn í sögu FH. Það var stórkostlegt. En þessi kemst nálægt því, þetta er alltaf jafn skemmtilegt," sagði Heimir.

Fjölnismenn spiluðu vel í dag og létu FH-inga hafa mikið fyrir hlutunum.

"Fjölnir er með frábært lið en mér fannst við vera með undirtökin og  fannst þeir ekki skapa mikið," sagði Heimir en Fjölnismenn jöfnuðu metin á 69. mínútu þegar Kennie Chopart skoraði sitt sjötta mark í sumar. En FH-ingar sýndu styrk og komust aftur yfir þegar Emil Pálsson stýrði skoti Jonathan Hendrickx í markið.

"Við lærðum af Blikaleiknum og eftir að þeir jöfnuðu komum við sterkir til baka, tókum yfir leikinn og kláruðum dæmið.

"Það er frábær karakter í FH-liðinu, við erum búnir að sýna það í allt sumar. Við höfum oft lent undir og við höfum klárað leikina á lokamínútunum," sagði Heimir sem er sáttur með sumarið í heild þótt hann hefði viljað fara einni umferð lengra í forkeppni Evrópudeildarinnar.

"Þetta hefur verið frábært sumar. Eina sem ég er svolítið pirraður yfir er að við skyldum ekki komast áfram í Evrópukeppninni og fengið að reyna okkur gegn Athletic Bilbao. Það voru pínu vonbrigði," sagði Heimir áður en lærisveinar hans kipptu honum úr viðtalinu til að tollera hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×