Íslenski boltinn

Bjarni Þór: Sé ekki eftir því að hafa komið heim

Ingvi Þór Sæmundsson í Kaplakrika skrifar
Bjarni Þór hefur skorað þrjú mörk í 19 deildarleikjum í sumar.
Bjarni Þór hefur skorað þrjú mörk í 19 deildarleikjum í sumar. vísir/stefán
Bjarni Þór Viðarsson var að vonum sæll og ánægður eftir sigur FH á Fjölni í dag þrátt fyrir að vera með brotið nef.

"Ég sé ekki eftir því núna og hef s.s. aldrei gert það," sagði Bjarni rétt áður en bróðir hans, Davíð Þór, lyfti Íslandsbikarnum. Bjarni sneri aftur í herbúðir FH í vetur eftir nokkur erfið ár í atvinnumennsku og segist ekki sjá eftir þeirri ákvörðun.

"Það var alltaf stefnan að vinna titilinn og við fórum ekkert leynt með það og það var pressa á okkur. En ég sé ekki eftir því að hafa komið heim."

Fjölnismenn létu FH-inga hafa mikið fyrir hlutunum í dag en þeir jöfnuðu metin á 69. mínútu. Tíu mínútum síðar skoraði Emil Pálsson svo sigurmark FH.

"Þetta var rosalega erfiður leikur," sagði Bjarni sem var utan vallar þegar Fjölnir jafnaði.

"Það var hrikalega erfitt að spila í fyrri hálfleik þegar vindurinn blés svona rosalega en við náðum betri stjórn á leiknum í seinni hálfleik og þetta gekk betur þá.

"Ég var hálfmeðvitundarlaus og nefbrotinn þegar þeir jöfnuðu þannig ég veit ekki alveg hvað gerðist," sagði Bjarni sem er ánægður með tímabilið.

"Já, ég er mjög sáttur. Ég byrjaði rosalega vel en tók svo smá dýfu. En ég reif mig aftur upp eins og allt liðið og það var frábært," sagði Bjarni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×