Fótbolti

Hitzfeld: Bayern á að leggja treyju númer 31 til hliðar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Schweinsteiger lék með aðalliði Bayern München í 13 ár.
Schweinsteiger lék með aðalliði Bayern München í 13 ár. vísir/getty
Ottmar Hitzfeld, fyrrverandi knattspyrnustjóri Bayern München, segir að félagið eigi að leggja treyjunúmerið 31 til hliðar til heiðurs Bastians Schweinsteiger sem er genginn í raðir Manchester United.

Miðjumaðurinn lék alls 500 leiki fyrir aðallið Bayern og skoraði 67 mörk en hann vann allt sem hægt er að vinna með þýska stórliðinu.

Sjá einnig: Schweinsteiger sendir stuðningsmönnum Bayern hjartnæm skilaboð

Í samtali við SportBild leggur Hitzfeld, sem gaf Schweinsteiger sitt fyrsta tækifæri með aðalliði Bayern árið 2002, að félagið leggi treyju númer 31 til hliðar.

„Það ætti að hengja treyjuna hans Bastians upp í rjáfur,“ sagði Hitzfeld sem gerði Bayern fimm sinnum að þýskum meisturum, þrisvar að bikarmeisturum auk þess sem liðið vann Meistaradeild Evrópu undir hans stjórn.

„Ég er viss um að enginn fær þetta númer í nánustu framtíð. Númerið 31 verður alltaf tengt honum og það er mögulegt að engum leikmanni verði úthlutað því framar.“

Schweinsteiger, sem er fyrirliði þýska landsliðsins, skrifaði undir þriggja ára samning við Manchester United en þar hittir hann fyrir Louis van Gaal, fyrrverandi knattspyrnustjóra sinn hjá Bayern. Talið er að Schweinsteiger hafi kostað United rúmlega 14 milljónir punda.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×