Fótbolti

Kári: Kemur í ljós hvort einhver vill kaupa 33 ára gamlan mann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kári Árnason spilaði vel með Rotherham en hér er hann á æfingu í morgun.
Kári Árnason spilaði vel með Rotherham en hér er hann á æfingu í morgun. vísir/ernir
Kári Árnason, miðvörður íslenska landsliðsins í fótbolta, var lykilmaður í liði Rotherham í ensku B-deildinni í vetur sem hélt sér uppi sem nýliði í deildinni.

Kári spilaði vel með Rotherham og var á dögunum orðaður við Leeds rétt eins og Birkir Bjarnason, miðjumaður landsliðsins.

"Það var nú bara einhver orðrómur. Ég heyrði ekkert meira af því," sagði Kári við Vísi á æfingu landsliðsins í morgun.

Miklar breytingar eru á Rotherham-liðinu sem mætir til leiks næta vetur og er alls óvíst hvort Kári verði þar áfram.

"Það eru margir sem voru hluti af kjarna liðsins farnir. Ég held að næsta tímabil verði svolítið erfitt þannig ég er að líta í kringum mig," sagði Kári.

"Ég á eitt ár eftir af samningi þannig það er spurning hvort eitthvað lið sé tilbúið að reiða fram fé fyrir tæplega 33 ára gamla mann. Það verður að koma í ljós," sagði hann og brosti.

Næsti samningur gæti verið sá síðasta hjá Kára í atvinnumennskunni og er hann því alveg til í að prófa eitthvað öðruvísi eins og félagi hans úr Víkingi, Sölvi Geir Ottesen, sem spilar í Kína.

"Ég er alveg tilbúinn í nýja áskorun og er að skoða allt, en ég verð að virða samninginn ef ekkert kemur upp," sagði Kári.

"Ég er til í að prófa eitthvað nýtt, en það er svolítið erfitt á þessum aldri. Það væri gaman að prófa eitthvað framandi eins og Kína," sagði Kári Árnason.


Tengdar fréttir

Alfreð: Ár sem mun gefa mér rosalega mikið

Alfreð Finnbogason vill vera áfram hjá Real Sociedad þrátt fyrir lítinn spilatíma á sinni fyrstu leiktíð á Spáni. Honum fannst leiktíðin skemmtileg þótt erfitt hafi verið að sitja jafnmikið á bekknum og raun bar vitni.

Emil: Við munum vinna Tékka

„Eins og svo oft áður er mjög góð stemning hjá okkur. Ég held hún sé jafnvel enn betri en áður miðað við okkar stöðu og hvernig við höfum staðið okkur," segir Emil Hallfreðsson yfirvegaður fyrir æfingu landsliðsins á Laugardalsvelli í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×