Fótbolti

Jón Daði: Vil komast í stærra félag

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson.
Jón Daði Böðvarsson. vísir/getty
„Það er alltaf jafn gaman að koma í landsliðið og mikil tilhlökkun fyrir leiknum," segir Jón Daði Böðvarsson á Laugardalsvelli í dag en hann hefur átt frábæra leiki fyrir íslenska landsliðið í undankeppni EM.

„Það er rosaleg stemning orðin í kringum þetta allt saman. Þessi Tékkaleikur á föstudaginn er auðvitað risastór en menn eru samt jafn rólegir og áður. Sigurviljinn er mikill líka. Við erum búnir að skoða mikið úr fyrri leiknum og mikið hægt að bæta síðan þá.

„Við lærðum af síðasta leik og ætlum okkur að gera betur. Það er mikil tiltrú í liðinu og traust. Það treysta allir hver öðrum og eru þéttir saman," segir Jón Daði en hvað þarf til þess að vinna þennan leik?

„Aga, sigurvilja og hugrekki."

Jón Daði spilar með Viking í Noregi og er ekkert allt of sáttur við sína stöðu þar.

„Tímabilið er tiltölulega nýbyrjað. Þetta hefur verið upp og niður fyrir mig persónulega og ég hef ekki verið eins mikið í byrjunarliðinu og ég hefði viljað. Þjálfarinn treystir á aðra tvo í framlínunni núna. Ég verð bara að hugsa um mig, vera fagmannlegur, halda mér í standi og reyna að nýta mínar mínútur," segir Jón Daði en vill hann komast frá félaginu?

„Mig langar að komast enn lengra. Ég vil komast að hjá stærra félagi og vonandi gerist eitthvað. Ég er opinn fyrir ýmsu. Ef félagið hentar mér og svona. Ég er samt ekkert farinn og á eitt ár eftir af samningi," segir framherjinn frá Selfossi en góð frammistaða með landsliðinu hjálpar honum.

„Landsliðið er mikill gluggi og sérstaklega þegar gengur svona vel. Það er gaman."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×