Fótbolti

Varamaður Van Persie kom Hollendingum á bragðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Georginio Wijnaldum fagnar marki sínu.
Georginio Wijnaldum fagnar marki sínu. Vísir/Getty
Hollendingar eru fimm stigum á eftir Íslendingum og þremur stigum á eftir Tékkum eftir 2-0 útisigur á Lettum á Skonto-leikvanginum í Riga í kvöld. Bæði mörk hollenska liðsins komu á lokakafla leiksins.

Hollendingar voru með mikla yfirburði í leiknum en það tók þá langan tíma að brjóta ísinn á móti baráttuglöðu liði Letta.

Hollendingum tókst þó ekki að skora fyrsta markið sitt fyrr en 23 mínútum fyrir leikslok. Pressan var þó mjög mikil sem sést ekki síst á því að það var 25. skottilraun hollenska liðsins í leiknum.

Það var varamaðurinn Georginio Wijnaldum sem kom Hollendingum í 1-0 á 67. mínútu en aðeins fjórum mínútum fyrr hafði hann komið inná sem varamaður fyrir Robin van Persie.

Wesley Sneijder lagði upp markið fyrir Wijnaldum og aðeins fjórum mínútum síðar var staðan orðin 2-0 eftir mark frá Luciano Narsingh.

Hollendingar eru þar með komnir með tíu stig í riðlinum og eru búnir að endurheimta þriðja sætið sem Tyrkir tóku af þeim fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×