Fótbolti

Hættir Hiddink fyrir leikinn gegn Íslandi í haust?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guus Hiddink og lið hans tapaði á Laugardalsvelli í haust.
Guus Hiddink og lið hans tapaði á Laugardalsvelli í haust. Vísir/Getty
Guus Hiddink, landsliðsþjálfari Hollands, viðurkennir í samtali við hollenska fjölmiðla að hann hafi íhugað að stíga til hliðar sem landsliðsþjálfari.

Holland er í sama riðli og Ísland í undankeppni EM 2016 og liðin mætast í næsta leik sem fer fram í Amsterdam í byrjun september.

Holland náði bronsverðlaunum á HM í Brasilíu síðastliðið sumar. Hiddink tók við liðinu eftir keppnina af Louis van Gaal og síðan þá hefur allt gengið á afturfótunum.

Undir stjórn Hiddink tapaði Holland tveimur af fyrstu þremur leikjum sínum í undankeppninni - gegn Tékklandi og Íslandi - og er nú í þriðja sæti riðilsins, fimm stigum á eftir toppliði Íslands. Tékkar eru svo í öðru sæti með þrettán stig.

Upphaflega áætlunin var sú að Hiddink stýrði liðinu í tvö ár, fram yfir EM 2016, og að aðstoðarþjálfarinn Danny Blind tæki svo við. En nú gæti verið að hann stígi fyrr til hliðar og að Blind gerist strax aðalþjálfari landsliðsins.

„Ég er með ákveðna hugmynd um annað hlutverk fyrir mig,“ sagði Hiddink við hollenska miðla. „En áður en ég ákveð nokkuð þarf ég að ræða við fólkið í kringum mig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×