Fótbolti

Ísland væri í þriðja styrkleikaflokki hjá UEFA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ísland fellur um eitt sæti hjá UEFA þrátt fyrir sigurinn á Tékkum.
Ísland fellur um eitt sæti hjá UEFA þrátt fyrir sigurinn á Tékkum. Vísir/Ernir
Ísland væri í þriðja styrkleikaflokki ef notast væri við styrkleikalista Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, fyrir undankeppni HM 2018.

Stigakerfi UEFA byggir hins vegar á öðrum útreikningum en styrkleikalisti FIFA, þar sem Ísland stendur vel að vígi.

Búist er við því að Ísland verði í sextánda sæti á meðal Evrópuþjóða á næsta FIFA-lista og þar með í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir undankeppni HM 2018 í næsta mánuði.

Útreikningar FIFA byggja á úrslitum allra leikja síðustu fjögurra ára en UEFA notast við aðrar aðferðir. Aðeins mótsleikir síðustu þriggja móta koma til greina, bæði í undankeppni og úrslitakeppni.

Vægi núverandi undankeppni (EM 2016) er 40%, vægi undankeppni og úrslitakeppni HM 2014 er 40% og vægi EM 2012 er 20%.

Ísland er nú í 22. sæti á lista UEFA með 27.535 stig, á eftir Ungverjalandi og Rússlandi. Liðið féll raunar um eitt sæti frá síðasta lista, sem var í apríl, þrátt fyrir frækinn 2-1 sigur á Tékklandi á föstudag. Tékkar féllu hins vegar úr tíunda sætinu í það sautjánda með tapinu.

Notast verður við stigalista UEFA þegar liðum verður raðað í styrkleikaflokka þegar dregið verður í riðla fyrir undankeppni EM 2020. Ísland hefur því enn nægan tíma til að klífa upp töfluna sem verður mun auðveldara ef strákarnir komast á EM í Frakklandi og ná einnig góðum árangri undankeppni HM 2018.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×