Innlent

42 uppsagnarbréf bárust í dag: Fleiri hjúkrunarfræðingar íhuga að segja upp

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Á fimmta tug hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum sagði upp störfum í dag. Mikil ólga er meðal þeirra vegna lagasetningar á verkfall.

„Við höfum fengið staðfest og skjalfest 42 uppsagnarbréf í dag. Það bætist við 21 uppsögn sem áður var komin frá geislafræðingum, og það kann að vera að fleiri séu á leiðinni,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Þá íhugar fjöldi hjúkrunarfræðinga til viðbótar að segja upp störfum.

„Ég mun skila inn uppsögn. Ég er alveg ákveðin í því,“ segir Hrönn Hreiðarsdóttir svæfingarhjúkrunarfræðingur. Mikil ólga er meðal hjúkrunarfræðinga vegna lagasetningar á verkfall þeirra og voru margir hugsi í dag.

„Maður finnur það að fólk er reitt,“ segir Vigdís Árnadóttir skurðhjúkrunarfræðingur.

Páll segir það mikið áhyggjuefni ef allar uppsagnirnar koma til með að standa.

„Það er náttúrulega bara nokkuð sem ég vil ekki hugsa um,“ segir Páll. „Við megum engan mann missa og ég held að við eigum ekki að ganga út frá því að allt þetta frábæra starfsfólk hætti, heldur að ganga út frá því að fundin verði lausn og sátt. Þannig að allt okkar góða starfsfólk geti áfram unnið að uppbyggingu heilbrigðiskerfisins.“


Tengdar fréttir

Uppsagnir óumflýjanlegar

Langlundargeð hjúkrunarfræðinga er að þrotum komið og munu margir í stéttinni segja upp störfum í vikunni. Heilbrigðisráðherra segir leitt ef til uppsagna hjúkrunarfræðinga þarf að koma. BHM íhugar málsókn.

Telur eðlilegt að BHM stefni ríkinu vegna lagasetningar

BHM ætlar að stefna íslenska ríkinu vegna lagasetningar á verkfall þeirra og segja hana brot á stjórnarskrá og mannréttindum. Hjúkrunarfræðingar íhuga að gera það sama. Lektor við lagadeild háskóla Íslands segir rökrétt af BHM að höfða málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×