Fótbolti

Rúrik: Alltaf einhverjar sögusagnir í gangi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúrik í vináttulandsleik gegn Belgíu í fyrra.
Rúrik í vináttulandsleik gegn Belgíu í fyrra. vísir/getty
„Það er alltaf gott að koma heim og það er svo mikið í húfi sem gerir verkefnið ennþá meira spennandi,“ sagði Rúrik Gíslason fyrir æfingu íslenska landsliðsins á Laugardalsvelli í morgun.

Framundan er leikur gegn Tékkum í undankeppni EM 2016 á föstudaginn en eftirvæntingin fyrir þennan stórleik er mikil. Rúrik segir að spennan sé nánast áþreifanleg.

„Það seldist strax upp á leikinn og það er ótrúlegur áhugi á leiknum og jákvæð stemmning í kringum hann. Fólk ætlast til að við vinnum og við ætlumst líka til þess sjálfir.“

Rúrik leikur með FC Köbenhavn sem lenti í 2. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar, auk þess sem liðið vann bikarmeistaratitilinn eftir sigur á Vestsjælland í framlengdum úrslitaleik.

„Það eru alltaf viss vonbrigði þegar FCK verður ekki meistari. En við reynum að finna ljósa punkta í þessu, við urðum bikarmeistarar og enduðum með fleiri en meistararnir í fyrra,“ sagði Rúrik sem veit ekki hvað tekur við hjá honum sjálfum - hvort hann verður áfram í herbúðum FCK þar sem hann hefur leikið síðan 2013.

„Ég veit það ekki. Það er óvíst. Ég á eitt ár eftir af samningnum mínum. Landsleikurinn er það sem skiptir máli núna og svo sjáum við til,“ sagði landsliðsmaðurinn en er eitthvað í kortunum hjá honum?

„Er ekki alltaf eitthvað í kortunum? Ég veit það ekki, það eru alltaf einhverjar sögusagnir á kreiki. Maður veit s.s. ekki hvað er rétt og rangt í þessu,“ sagði Rúrik sem vildi ekki ræða um meintan áhuga þýska B-deildarliðsins Nürnberg á honum. En hefur hann áhuga á að vera áfram í Danmörku?

„Já, mér líður frábærlega í Kaupmannahöfn og þetta er einstakur klúbbur. Ég get þess vegna hugsað mér að búa í Kaupmannahöfn eftir ferilinn. Manni líður það vel þarna,“ sagði Rúrik að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×