Fótbolti

Kevin-Prince Boateng fékk sparkið hjá Schalke

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin-Prince Boateng.
Kevin-Prince Boateng. Vísir/Getty
Horst Heldt, íþróttastjóri Schalke, stóð við stóru orðin en hann hótaði því að tap liðsins á móti Köln í þýsku deildinni um helgina hefði miklar afleiðingar.

Samningum við leikmennina Kevin-Prince Boateng og Sidney Sam var sagt upp í morgun og birti félagið yfirlýsingu um það á heimasíðu sinni.

Marco Höger er einnig refsað en hann má ekki mæta á æfingu hjá liðinu til og með 16. maí næstkomandi.

Sidney Sam átti þrjú ár eftir af samningu sínum en Boateng aðeins eitt ár.

Julian Draxler, miðjumaður liðsins frá 2010, talaði um það eftir leikinn að þetta hafi verið ein af verstu frammistöðum liðsins í mörg ár.

„Það vantar allt hjá okkur sem gerir okkur að Schalke. Það var engin ástríða, enginn vilji til að hlaupa og engar tilfinningar," sagði fyrirliðinn Benedikt Howedes.

Eftir tapið á móti Köln þá er Schalke-liðið í sjötta og síðasta sætinu sem gefur þátttökurétt í Evrópukeppnunum á næsta ári.

Borussia Dortmund og Werder Bremen eru tveimur stigum á eftir Schalke og því má ekki mikið fara úrskeiðis í síðustu tveimur umferðunum. Dortmund er á miklu skriði og líklegt til að taka sex stig í síðustu tveimur leikjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×