Við á Lífinu fengum Sindra Snæ Jensson, knattspyrnumarkvörð, tískumógúl og eiganda fataverslunarinnar Húrra til að greina klæðnað margra af helstu stjörnum deildarinnar.

Hinn fullskeggjaði skotbakvörður Houston Rockets, James Harden, fær einnig góða einkunn hjá Sindra. „Maðurinn er einn allra mesti töffarinn í deildinni og þó víðar væri leitað. Gæjinn er langt á undan öðrum í leiknum og klæðist fötum sem enginn annar í deildinni myndi íhuga. Þegar menn eru svona framsæknir þá eiga þeir það til að skjóta múrsteinum líka í klæðaburði og það kemur alveg fyrir hjá Harden.“

Sindri lætur eitt fimm stafa orð nægja til að lýsa liðsfélaga LeBron, leikstjórnandanum Kyrie Irving. „Svægi.“ Svo mörg voru þau orð.

„Pau Gasol, leikmaður Chicago Bulls, spilar þetta öruggt. Hann er klæddur eins og hann sé á leið í atvinnuviðtal. Það hefði aðeins mátt líta á sniðið á jakkafötunum.“ Bróðir Pau, Marc Gasol, leikur með Mephis Grizzlies, og fær falleinkunn hjá Sindra. „Efnið sem þarf að taka af buxunum myndi duga í nýjar buxur á meðalmann. Skórnir, bindið og skyrtan eru líka út úr kortinu. Alger falleinkunn á Spánverjann.“
Makedóníumaðurinn Pero Antic getur bæði leist stöðu kraftframherja og miðherja hjá Atlanta Hawks. „Þessi klæðnaður gerir ekki neitt fyrir hann. Honum finnst hann sjálfur þó sennilega geggjaður og það er fyrir öllu.“

Sindri segir að klæðnaður kraftframherja San Antonio Spurs sé stórslys fyrir nafn af hans stærðargráðu. Réttast væri að hann tæki yngri leikmenn sér til fyrirmyndar og réði sér stílista. „En sumum er ekki viðbjargandi. Tíska og klæðaburður er ekki fyrir alla og lítið hægt að velta sér upp úr þessu.“
Tyson Chandler, miðherji Dallas Mavericks, klæðist mjög elegant jakkafötum sem greinilega eru sérsaumuð. „Að girða bolinn ofan í og sleppa beltinu er frábært touch. Það þarf kjark í þetta „look“ en hann „púllar það“ af krafti,“ segir Sindri.

„Joe Johnson er mjög svalur. Götutíska í bland við „preppy“ virkar mjög vel á honum. Maðurinn er vægast sagt mjög svalur. Mike Conley hins vegar veit upp á hár hvað er í tísku en nær ekki að túlka það nógu vel. Ég gef honum plús fyrir að reyna en meira fær hann ekki.“

„Menn verða að vita hvar strikið er en fyrir suma af þessum gaurum er það fyrir löngu orðið ósýnilegt,“ segir Sindri um fataval DeAndre Jordan hjá LA Clippers. „Þarna fór hann aðeins yfir strikið en ég sé hvað hann er að reyna.“

Blake Griffin hefur margoft setið fyrir hjá GQ og er afar glæsilegur. „Hann hefur lært helling á módelstörfunum. Jakkafötin falla vel að honum og vasaklúturinn fullkomnar lúkkið.“
Dwight Howard átti hræðilega tíma hjá LA Lakers en er nú kominn til Houston. Fatasmekkurinn virðist hafa orðið eftir í borg englanna hafi hann einhverntíman verið til. „Það er einfaldlega allt rangt við þetta. Skórnir eru of támjóir og litirnir passa illa saman. Hann lítur út eins og einhver sem er að fara að gifta sig á Hawaii.“
„Þessi grænu jakkaföt hjá Lillard öskra á völd. Hann gæti auðveldlega verið boxari á leið á blaðamannafund skömmu fyrir bardagann. Litasamsetningin er líka fullkominn,“ segir Sindri um leikstjórnanda Portland Trailblazers.
