Málið dregið óþarflega á langinn
Þetta kemur fram í áliti minnihlutans sem birt var á vef Alþingis í kvöld. Meirihlutinn birti álit sitt fyrr í dag. Þar eru meðal annars gerðar alvarlegar athugasemdir við upplýsingagjöf Hönnu Birnu í skriflegu svari, í þingsal og fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem hafi verið til þess fallin að draga umfjöllun um málið óþarflega á langinn.

Þá hafi þingmenn ekki fengið fullnægjandi upplýsingar til að geta tekið upplýsta afstöðu til málsins. Telur minnihlutinn að Hanna Birna hefði getað svarað spurningum þingmanna um minnisblaðið mun fyrr og með skýrari hætti. Hún hefði getað upplýst að útbúið hefði verið minnisblað í ráðuneytinu um málið en að þar hefðu ekki verið þær meiðandi upplýsingar sem fram komu í fjölmiðlum.
Alvarlegar yfirlýsingar ráðherrans
Jafnframt gagnrýnir minnihlutinn orð ráðherrans í garð undirstofnana ráðuneytisins, lögmanna, Rauða krossins og fleiri aðila og segir hana hafa ýjað að því að starfsmenn þessara aðila auk lögmanna gætu hafa brotið gegn ákvæðum um þagnarskyldu. „Slíkar yfirlýsingar hljóta að teljast alvarlegar af hálfu ráðherra og meiðandi fyrir hlutaðeigandi aðila,“ segir í álitinu.
Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sagði í áliti sínu í dag að umfjöllun um þátt Hönnu Birnu í lekamálinu hefði lokið með áliti umboðsmanns Alþingis. Hún hafi borið pólitíska ábyrgð með afsögn sinni og bendir á að fyrrum aðstoðarmaður hennar, Gísli Freyr Valdórsson, hlaut dóm fyrir brot í starfi.