Fótbolti

Skotar í bestu stöðu liðanna í þriðja sæti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Skotar fögnuðu sigri á Gíbraltar um helgina.
Skotar fögnuðu sigri á Gíbraltar um helgina. Vísir/Getty
Eftir frækinn 3-0 sigur á Kasakstan á laugardaginn er Ísland í góðum málum í A-riðli undankeppni EM 2016 með tólf stig af fimmtán mögulegum.

Aðeins Tékkar eru með fleiri stig, þrettán talsins, en þeir mæta okkar mönnum á Laugardalsvelli þann 12. júní.

Tvö efstu liðin úr hverjum riðli komast áfram í lokakeppnina í Frakklandi og er Ísland með fimm stiga forystu á næsta lið, Holland, eftir jafntefli síðarnefnda liðsins gegn Tyrklandi sem er í fjórða sæti með fimm stig.

Ísland á eftir heimaleiki gegn Tékklandi, Kasakstan og Lettlandi og útileiki gegn Hollandi og Tyrklandi. Það eru því enn mikið af stigum í pottinum en útlitið er óneitanlega gott fyrir Lars, Heimi og okkar menn.

24 lið taka þátt í lokakeppni EM 2016 en liðunum hefur verið fjölgað um átta frá því í síðustu keppni. Frakkland er öruggt með sitt sæti sem gestgjafi og sem fyrr segir komast efstu tvö liðin úr riðlunum níu áfram í lokakeppnina.

Eftir standa fimm lið. Það lið sem bestum árangri af þeim sem lenda í þriðja sæti sinna riðla kemst beint á EM en hin átta mætast í umspili, heima og að heiman, í nóvember um síðustu fjögur sætin.

Sem stendur er Skotland með bestan árangur liðanna í þriðja sæti en næst á eftir koma Ungverjaland, Albanía, Sviss, Úkraína, Noregur, Belgía, Holland og Rússland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×