Fótbolti

Gylfi: Gott að fá kallinn aftur í liðið

Óskar Ófeigur Jónsson í Astana skrifar
Gylfi lagði upp annað mark Íslands.
Gylfi lagði upp annað mark Íslands. vísir/vilhelm
Gylfi Þór Sigurðsson var ánægður með frammistöðu Íslands í sigrinum á Kasakstan í Astana í dag.

 

„Þetta var mjög fagmannlegur sigur, við vörðumst vel og skoruðum þrjú mörk,“ sagði Gylfi í samtali við Vísi eftir leikinn.

 

„Við hefðum farið sáttir heim með 1-0 en að spila vel, skora þrjú mörk og halda hreinu var mjög gott,“ sagði Gylfi ennfremur.

 

„Það var gott að skora snemma og það gaf okkur mikið sjálfstraust. Við fylgdum því svo vel eftir,“ sagði Swansea-maðurinn sem bjóst við Kasökunum grimmum í dag.

 

„Við vissum að þeir myndu setja okkur undir pressu í byrjun, en ég held að þeir hafi misst trúna eftir fyrstu tvö mörkin. Eftir vorum við mjög rólegir og nýttum breidd vallarins vel. Það gerði þeim erfitt fyrir.“

 

Gylfi var ánægður með framlag Eiðs Smára Guðjohnsen sem skoraði fyrsta mark Íslands á 20. mínútu.

 

„Það var gott að fá kallinn aftur inn í liðið. Hann býr yfir mikilli reynslu. Hann er með flottar hreyfingar og mjög klókur. Það er gott að spila boltanum á hann, því hann heldur honum svo vel.

 

„Það er auðvelt að spila með góðum leikmönnum. Hann kemur sér alltaf í góða stöðu til að fá boltann í fyrsta,“ sagði Gylfi að lokum um félaga sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×