Fótbolti

Kolbeinn jafnaði árangur Ríkharðs

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kolbeinn fagnar marki sínu í kvöld.
Kolbeinn fagnar marki sínu í kvöld. Vísir/Ernir
Kolbeinn Sigþórsson er orðinn næstmarkahæsti leikmaður Íslands frá upphafi en hann jafnaði árangur Ríkharðs Jónssonar í kvöld.

Kolbeinn skoraði sitt sautjánda landsliðsmark á ferlinum en leikurinn í kvöld er aðeins hans 29. landsleikur.

Ríkharður Jónsson skoraði sautján mörk í 33 landsleikjum og átti markamet íslenska landsliðsins í 45 ár, þar til að Eiður Smári Guðjohnsen bætti það á Laugardalsvelli þann 13. október 2007.

Eiður Smári bætti metið í tapleik gegn Lettlandi, 4-2, en Eiður skoraði bæði mörk Íslands í leiknum. Markamet Eiðs Smára með landsliðinu stendur nú í 24 mörkum.

Næstir á markalista íslenska landsliðsins eru þeir Ríkharður Daðason og Arnór Guðjohnsen sem báðir skoruðu fjórtán mörk á sínum landsliðsferli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×