Lars Lagerbäck á nú öll helstu metin yfir besta árangur íslenskra karlalandsliðsþjálfara í fótbolta. Hann tók þrjú af Guðjóni Þórðarsyni á dögunum.
Undir stjórn Lars Lagerbäck hefur íslenska fótboltalandsliðið náð í 67 prósent stiga í boði í leikjum sínum í undankeppni HM 2014 og EM 2016 þegar undanskildir eru umspilsleikirnir við Króata.
Þetta er langbesti árangur landsliðsþjálfara í keppnisleikjum frá upphafi. Guðjón Þórðarson er í öðru sæti með 50 prósent en hann var búinn að vera í efsta sætinu frá árinu 1999 þegar Lars tók við.
Lagerbäck tók enn fremur þrjú met af Guðjóni Þórðarsyni í síðustu landsleikjatörn en íslenska landsliðið hefur nú aldrei skorað fleiri mörk fyrir einn þjálfara (25, metið var 22) eða náð í fleiri stig undir stjórn eins þjálfara (26, metið var 21) í undankeppnum HM eða EM.
Lagerbäck átti fyrir sigurleikina gegn Lettlandi og Hollandi metið yfir flesta sigurleiki ásamt Guðjóni en Guðjón missti nú það met til Svíans eins og hin tvö.

