Íslenski boltinn

Hermann og David James ætla að þjálfa áfram saman

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hermann Hreiðarsson stefnir enn að því að finna sér starf í þjálfun í samstarfi við David James.
Hermann Hreiðarsson stefnir enn að því að finna sér starf í þjálfun í samstarfi við David James. Vísir/Daníel
Hermann Hreiðarsson hefur enn ekki ráðið sig til nýs félags eftir að hann lét af störfum sem þjálfari ÍBV að loknu síðasta tímabili. Markvörðurinn David James var aðstoðarþjálfari Hermanns í Eyjum og hyggja þeir á áframhaldandi samstarf.

„Við höfðum gaman af þessu í sumar og leið vel í starfinu. Við erum bara búnir með eitt ár í þjálfun og erum spenntir fyrir því að starfa áfram saman. Við teljum að það gæti reynst okkur báðum vel,“ sagði Hermann í samtali við Fréttablaðið í gær.

Þeir Hermann og James sendu inn sameiginlega umsókn um stöðu knattspyrnustjóra Portsmouth, þeirra gamla félags, í haust en voru ekki ráðnir. James er nú staddur í Englandi að klára UEFA A-þjálfaragráðu sína auk þess að starfa við þjálfun.

Sjálfur er Hermann í fríi frá knattspyrnunni í fyrsta sinn í langan tíma enda tók þjálfaraferillinn við af löngum atvinnumannasferli í Englandi.

„Nú horfir maður á þetta umhverfi utan frá í smá tíma sem er ágætt eftir að hafa verið á kafi í þessu í ansi mörg ár. Maður kemur síðan ferskur inn þegar eitthvað býðst,“ segir Hermann.

Hann stefnir að því að ná sér í æðstu þjálfaragráðu Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA Pro License, en þangað til einbeitir hann sér að því að byggja upp hótelrekstur á Hellu.

„Maður er að stússast í þessu daginn út og inn og stefnan er ýta því úr vör í sumar. Svo veit maður aldrei hvað gerist.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×