Fótbolti

Reus með hraðasektir upp á 83 milljónir á bakinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Þýski framherjinn Marco Reus er afar eftirsóttur um þessar mundir en þessi skæði leikmaður Dortmund og þýska landsliðsins hefur ítrekað gerst brotlegur fyrir hraðaakstur.

Samkvæmt frétt þýska götublaðsins Bild hefur Reus verið stöðvaður í minnst fimm skipti fyrir hraðaakstur síðan 2011 áður en það uppgötvaðist að hann var réttindalaus þar að auki.

Saksóknari í Dortmund hefur staðfest að Reus hafi verið sektaður um samtals 540 þúsund evrur fyrir brot frá 2011 þar til í mars á þessu ári. Það gera rúmar 83 milljónir króna.

„Ég ákvað að feta þessa slóð á sínum tíma en ástæður þess eru mér í dag hulin ráðgáta,“ var haft eftir Reus í Bild. „Ég veit í dag að ég var of barnalegur og of heimskur. Ég hef lært mína lexíu og þetta mun ekki koma fyrir aftur.“

Forráðamenn Dortmund hafa ekki tjáð sig um málið en Reus, sem missti af HM í sumar vegna meiðsla, hefur verið sterklega orðaður við Real Madrid síðustu vikurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×