Fótbolti

Elmar: Eigum að sækja til sigurs

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Brussel skrifar
Theódór Elmar Bjarnason er orðinn spenntur fyrir leik Íslands gegn Tékklandi á sunnudag en bakvörðurinn hefur verið að telja niður dagana fram að leik.

„Það er mikill spenningur í okkur,“ sagði hann og lofaði frammistöðu þeirra leikmann sem spiluðu í 3-1 tapleiknum gegn Belgíu á miðvikudag.

„Það var gott að sjá að allir sem þeir spiluðu í leiknum geta komið inn í liðið og fyllt í skarð hinna án þess að það sjáist munur á liðinu. Þetta var því jákvætt þó svo að það sé alltaf hundleiðinlegt að tapa.“

Hann telur enga ástæðu til annars en að mæta til leiks á sunnudag með fullt sjálfstraust „Við höfum séð það að á góðum degi getum við staðið í hvaða liði sem er. Hugarfar okkar hefur ekkert breyst og við mætum í hvern leik til að vinna.“

„Við mætum nú góðu liði sem hefur byrjað vel í undankeppninni eins og við. Þetta verður því jafn leikur að mínu mati en ef allt gengur upp hjá okkur getum við vel farið með þrjú stig heim frá Tékklandi.“

Hann segir að það sem beri að varast við leik Tékkana sé það sama og Tékkar þurfi að varast við íslenska liðið.

„Bæði lið eru með sterka liðsheild sem sækja bæði og verjast sem eitt lið. Við þurfum að vera tilbúnir að gera einmitt það og einbeita okkur að því að spila okkar leik í stað þess að verja 0-0 jafntefli. við eigum að sækja til sigurs og þá getur allt gerst.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×