Fótbolti

Del Bosque: Bjuggumst ekki við þessu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Síðustu mánuðir hafa verið erfiðir fyrir Del Bosque.
Síðustu mánuðir hafa verið erfiðir fyrir Del Bosque. Vísir/Getty
Vicente Del Bosque, landsliðsþjálfari Spánar, kom sínum mönnum til varnar eftir tapið óvænta gegn Slóvakíu í Zilina í gær. Þetta var fyrsta tap Spánverja í undankeppni EM eða HM síðan þeir töpuðu fyrir Svíþjóð í október 2006.

„Við bjuggumst ekki við þessu,“ sagði Del Bosque eftir leikinn.

„Þetta var fyrsta tap okkar í 28 leikjum í undankeppni. Slóvakar gerðu okkur erfitt fyrir og unnu fyrir sigrinum. Við sýndum þolinmæði þegar við héldum boltanum, en við vorum ekki nógu góðir upp við markið og markvörðurinn þeirra spilaði vel.

„Það finnst engum gaman að tapa, en það getur enginn sagt að við höfum ekki lagt okkur fram,“ bætti landsliðsþjálfarinn við.

Del Bosque varði einnig fyrirliðann og markvörðinn Iker Casillas sem leit ekki vel út í fyrra marki Slóvaka sem Juraj Kucka skoraði.

„Casillas varði vel í sókninni á undan. Ég sá markið ekki nógu vel af bekknum, en flugið á boltanum var skrítið og Iker var varnarlaus,“ sagði Del Bosque sem kom Diego Costa einnig til varnar, en framherjinn, sem hefur spilað frábærlega fyrir Chelsea á tímabilinu, hefur ekki enn skorað í sex landsleikjum fyrir Spán.

„Costa er mjög ákveðinn í að standa sig. Við erum ánægðir með frammistöðu hans sem og viðhorfið.“

Spánverjar eru með þrjú stig í öðru sæti C-riðils, en Slóvakar sitja á toppnum með sex stig.


Tengdar fréttir

26 landsleikir sýndir á sportstöðvunum næstu sex daga

Undankeppni EM á sviðsljósið á næstu dögum bæði í fótboltaheiminum sem og á sportsstöðvum Stöð 2. Alls verða 26 landsleikir sýndir á næstu sex dögum, 25 í undankeppni EM og 1 í umspili um sæti á EM U21.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×