Fótbolti

Kolbeinn: Gaman fyrir mig að koma á æfingu

Ingvi Þór Sæmundsson á Laugardalsvelli skrifar
Kolbeinn Sigþórsson í framlínunni í kvöld.
Kolbeinn Sigþórsson í framlínunni í kvöld. vísir/andri marinó
„Ég mæti til Hollands með bros á vör. Þetta var frábær sigur,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson, framherji íslenska landsliðsins, eftir 2-0 sigurinn á Hollandi í kvöld.

Kolbeinn þekkir vel til í Hollandi þar sem hann hefur leikið í mörg ár. Hann segir að sú staðreynd geri sigurinn enn sætari en ella.

„Að sjálfsögðu. Ég þekki nánast alla í hollenska liðinu, þannig að það verður mjög gaman fyrir mig að koma á æfingu,“ sagði Kolbeinn sem var ánægður með vinnuframlagið hjá íslenska liðinu.

„Varnarlega séð vorum við að hlaupa fyrir hvern annan og við spiluðum sem lið. Það skein í gegn. Liðsheildin skilaði þessum sigri í kvöld.

„Við vorum hættulegir þegar við sóttum, nýttum okkar færi og sigurinn hefði getað orðið stærri ef eitthvað var. Þeir áttu engin svör við leik okkar í kvöld,“ sagði framherjinn sem er að vonum ánægður með uppskeruna í undankeppninni til þessa.

„Þetta er draumi líkast, að byrja svona vel, og vonandi getum við haldið áfram á sömu braut.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×