Fótbolti

Jón Daði: Sagði eina setningu vitlaust

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Riga skrifar
Jón Daði á æfingu landsliðsins á Skonto-leikvanginum í dag.
Jón Daði á æfingu landsliðsins á Skonto-leikvanginum í dag. Vísir/Valli
Jón Daði Böðvarðsson, leikmaður Viking í Noregi og íslenska landsliðsins, komst í fréttirnar í Noregi á dögunum fyrir að gagnrýna þjálfara liðsins opinberlega.

„Þetta er ekki nógu gott. Það er ekkert plan í gangi. Ef þetta heldur svona áfram verðum við líka í vandræðum á næsta ári,“ var haft eftir Jóni Daða í viðtali við Rogalands Avis.

„Ég gerði smá mistök,“ sagði hann í samtali við Vísi á æfingu landsliðsins í Riga í Lettlandi í dag. „Mér varð á að segja eina setningu vitlaust í einhverju viðtali og þá varð allt brjálað.“

„En það er búið og engir eftirmálar að því,“ segir Jón Daði en hann undirbýr sig nú fyrir leikinn gegn Lettlandi á föstudag.

„Maður var eðlilega nokkuð hátt uppi eftir síðasta leik enda að spila sinn fyrsta alvöru landsleik,“ sagði Jón Daði sem skoraði eitt marka Íslands í 3-0 sigri á Tyrklandi. „En núna er ég búinn að koma mér aftur niður á jörðina,“ bætir hann við en hann veit ekki hvort hann haldi byrjunarliðssætinu á föstudag.

„Ég veit það ekki í fullri hreinskilni enda er þetta afar sterkur hópur. Það er ekkert lengur sem kemur manni á óvart og ég er spenntur fyrir þessu eins og allir aðrir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×