Fótbolti

Naismith: Þurfum að vera þolinmóðir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Naismith hefur leikið vel með Everton í byrjun leiktíðar.
Naismith hefur leikið vel með Everton í byrjun leiktíðar. Vísir/Getty
Steven Naismith, leikmaður Everton og skoska landsliðsins, segir að Skotar muni sækja til sigurs gegn Georgíu í undankeppni EM 2016 á laugardaginn.

Leikurinn fer fram á Ibrox, heimavelli Rangers, og Naismith vonast eftir góðum stuðningi áhorfenda.

„Við viljum stjórna hraðanum í leiknum á heimavelli með fólkið í stúkunni að styðja við bakið á okkur. Við þurfum að halda áfram á sömu braut og við höfum verið á.

„Við höfum 90 mínútur til að brjóta þá á bak aftur og við megum ekki vera óþolinmóðir,“ sagði Naismith, en Skotar töpuðu fyrsta leik sínum í undankeppni EM gegn heimsmeisturum Þjóðverja.

„Við þurfum að halda boltanum og nýta færin sem við fáum. Við erum með leikmenn sem geta leikið á mótherja og við þurfum á því að halda á laugardaginn,“ sagði Naismith ennfremur, en hann hefur byrjað tímabilið vel í ensku úrvalsdeildinni. Framherjinn hefur spilað alla sjö leiki Everton og skorað fjögur mörk.

Pólland, Írland og Gíbraltar eru einnig í D-riðli undankeppninnar, en Skotar sækja Pólverja heim á þriðjudaginn, eftir leikinn gegn Georgíu. Pólland er með fullt hús stiga í riðlinum eftir 7-0 sigur á Gíbraltar, þar sem Robert Lewandowski, leikmaður Bayern München, skoraði fernu.

Leikur Skotlands og Georgíu hefst klukkan 16:00 á laugardaginn og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.

Leikur Skotlands og Póllands hefst klukkan 18:45 á þriðjudaginn og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×