Fótbolti

Gylfi: Setjum pressuna á okkur sjálfir

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi Sigurðsson í leik með íslenska landsliðinu.
Gylfi Sigurðsson í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Valli
Gylfi Sigurðsson, miðjumaður Íslands og Swansea í ensku úrvalsdeildinni, segir að íslenska landsliðið sé vel undirbúið fyrir leikinn gegn Tyrklandi á þriðjudag. Gylfi reiknar með hörkuleik.

Leikurinn er fyrsti leikurinn í nýrri undankeppninni eftir vonbrigðin gegn Króatíu í vor í umspilsleikjunum um laust sæti á HM. Gylfi segir að undirbúningurinn gangi vel.

„Þetta leggst ágætlega í hópinn. Við erum búnir að æfa saman í nokkra daga og ég held að undirbúningurinn gangi bara vel," sagði Gylfi í samtali við Vísi.

„Möguleikarnir eru ágætir. Við erum á heimavelli, en vitum að liðið hjá Tyrklandi er mjög gott. Þetta verður mjög erfiður leikur, en ef við náum stigi eða þremur þá er það mjög fínt."

Gylfi segir að hópurinn hjá Tyrklandi sé firnasterkur.

„Það eru margir hjá þeim í Meistaradeildinni og spila í Tyrklandi og nokkrir utan Tyrklands í mjög góðum liðum. Hópurinn hjá þeim er mjög sterkur."

„Ég held að við setjum alltaf bara pressuna á okkur sjálfir. Ég held að það sé meiri eftirvænting frá fólkinu í landinu, en ég held að við ættum að geta nýtt okkur það á góðan máta."

„Þeir eru með mjög góða einstaklingsleikmenn, sérstaklega Arda Turan sem spilar með Atletico madrid. Síðan eru nokkrir aðrir sem eru mjög góðir þegar þeir eru með boltann. Við þurfum að stoppa það og nýta okkur það þegar við erum með boltann."

„Við stefnum á þrjú stig í hverjum leik, en við vitum að þetta verður hörkuleikur og þetta getur farið á báða vegu," sagði hógvær Gylfi Þór Sigurðson að vanda við Vísi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×