Íslenski boltinn

Engin áform um frestun | KR-völlurinn á floti

Anton Ingi Leifsson skrifar
KR-völlurinn í slæmu ástandi.
KR-völlurinn í slæmu ástandi. Vísir/KR
Birkir Sveinsson, mótastjóri KSÍ, segir í samtali við Vísi að engin félög hafi haft samband við hann og beðið um frestun á leikjunum sem eiga að fara fram í dag. Heil umferð í Pepsi-deild karla er fyrirhuguð.

Veðrið er afar slæmt á höfuðborgarsvæðinu en mikil rigning er þessa stundina og hefur verið í alla nótt. Auk þess er strekkingsvindur víða og veður til knattspyrnuiðkunar ekki gott.

Birkir sagði að eina sem kæmi til greina væri að fresta leikjunum, en hann vonaðist til að veðrið myndi slá niður.

„Staðan eins og hún er núna er ekki eins og best verður á kosið, en við lentum í svipuðu fyrir Evrópuleik gegn Glentoran 2010 þá fengum við vaska menn í vinnu sem komu mestum hluta vatnsins niður," sagði Sveinbjörn Þorsteinsson, vallarstjóri KR-vallar, í samtali við Fótbolta.net.

Stórleikur KR og Stjörnunnar á að fara fram á KR-vellinum í dag, en liðin eru í öðru og þriðja sæti Pepsi-deildarinnar. Sveinbjörn treystir á Ingó Veðurguð.

„Við stefnum að sjálfsögðu að spila leikinn, en við tökum stöðuna seinna í dag. Við vonum að Ingó Selfyssingur og hans vinir verði með okkur í dag."

Leikur KR og Stjörnunnar, fari hann á annað borð fram, verður í beinni sjónvarpsútsendingu á Stöð 2 Sport klukkan 17 og beinni textalýsingu á Vísi líkt og allir sex leikir dagsins. Pepsi-mörkin fara svo yfir alla leikina í beinni klukkan 22 á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×